Námsgreinar

Fjölbreytt nám er í boði. Flestir nemendur skólans hefja nám í forskólanum, sem er samþætt byrjendanám til undirbúnings frekara námi í hljóðfæraleik. Samkvæmt aðalnámskrá tónlistarskóla, sem tók að fullu gildi þann 1. júní 2003, skiptist námið í þrjá megináfanga; grunnnám, miðnám og framhaldsnám og lýkur hverjum áfanga með áfangaprófum, annars vegar í hljóðfæraleik og hins vegar í tónfræðagreinum. Þessi áfangaskipting kemur í stað eldri stigaskiptingar og er nemendum skólans ekki raðað í stig innan áfanganna. Námstími innan hvers áfanga er breytilegur og ræðst m.a. af aldri, þroska, ástundun og framförum. Miðað er við að flestir nemendur sem hefja hljóðfæranám 8-9 ára ljúki grunnnámi á þremur árum. Í mið- og framhaldsnámi eykst umfang námsins og sá tími sem tekur að ljúka áföngunum. Að jafnaði fer hljóðfæranám fram í einkatímum og fær nemandinn tvisvar sinnum 30. mínútna kennslu í aðalgrein í viku hverri. Þá er einnig boðið upp á nám í þjóðlagadeild fyrir fiðlunemendur. Sem hluta af námi sínu sækja nemendur tíma í tónfræðagreinum ásamt sinni aðalgrein. Í grunn- og miðnámi er um að ræða samþætt nám í tónfræðum, tónheyrn, hlustun, sköpun og tónlistarsögu. Í framhaldsnáminu taka við aðskildir tímar í hljómfræði, tónheyrn og tónlistarsögu. Í náminu er lögð áhersla á samleik af ýmsu tagi og lögð er áhersla á að nemendur komi fram á tónleikum innan skólans, sem utan.