Forskólinn

Tónlistarskólinn í Grafarvogi býður upp á forskóla fyrir börn á fyrsta og öðru ári grunnskóla. Forskólanámið er alhliða tónlistarnám sem miðar einnig að því að undirbúa börn undir annað hljóðfæranám. Kennt er í hóp og fær hver hópur tvær kennslustundir á viku. Áhersla er lögð á að veita alhliða tónlistarþjálfun með sköpun, hlustun, hreyfingu og hrynleikjum. Í tónsköpun er stuðst við röddina, blokkflautu, ukulele, Orff hljóðfæri og hin ýmsu ásláttarhljóðfæri. Börnin fá að kynnast hljóðfærum, ólíkum tónlistarstílum og læra grunnhugtök tónlistar. Í kennslustundum er áhersla lögð á virðingu, jákvæðni og vináttu þar sem nemendur geta upplifað og skapað í góðu umhverfi. Forskólahóparnir taka þátt í fjölda tónleika og viðburða innan síns hverfis.

Á fyrsta ári forskólans er áhersla lögð á söng, blokkflautu og slagverk. Námsefnið er ákaflega skemmtileg nýútgefin bók, Tuttugu töffarar, sjá tuttugutoffarar.is og Tónlistin er þín eftir Auði Guðjohnsen.

Á öðru ári forskólans er boðið upp á fornám á píanó samhliða söng og ukulele. Námsefnið er meðal annars Það er gaman að spila á píanó eftir Örvar Inga Jóhannesson, Hljómleikur, kennslubók fyrir byrjendur í ukulele og hljómborðsleik eftir Helgu Þórdísi Guðmundsdóttur og Tónlistin er þín eftir Auði Guðjohnsen.

Á þriðja ári hefja börnin einkanám á sitt hljóðfæri en þá býðst nemendum að halda áfram í sönghóp þar sem unnið er með undirstöðuatriði í söngtækni. Söngnemendur halda þá áfram að æfa samsöng í röddum og þeir sem óska fá að spreyta sig í einsöng.

Kennarar forskólans eru Auður Guðjohnsen og Sævar Helgi Jóhannsson.

Auður Guðjohnsen hefur lokið mastersnámi í listkennslu frá Listaháskóla Íslands. Áður lauk hún Burtfarar- og söngkennaraprófi frá Söngskólanum í Reykjavík. Auður er mezzósópran og hefur víða komið fram hérlendis sem og erlendis. Hún hefur unnið áralangt við tónlistarsköpun og söng með börnum innan sem utan skólakerfisins og gaf út söngbók fyrir börn, Tónlistin er þínwww.tonafondur.com. Auður starfar við tónsmíðar, söng, barnakórstjórn og tónlistarkennslu á Íslandi.