Forskólinn

Tónlistarskóli Grafarvogs býður upp á forskóla fyrir börn á fyrsta og öðru ári grunnskóla. Forskólanámið miðar að því að undirbúa börn undir hljóðfæranám. Kennt er í hóp og fær hver hópur tvær kennslustundir á viku, 50 mínútur í senn. Áhersla er lögð á að veita alhliða tónlistarþjálfun með sköpun, hlustun, hreyfingu og hrynleikjum. Í tónsköpun er stuðst við röddina, blokkflautu, ukulele og hin ýmsu ásláttarhljóðfæri. Börnin fá að kynnast hljóðfærum og tónlist víða úr heimi og læra grunnhugtök tónlistar. Í kennslustundum er áhersla lögð á virðingu, jákvæðni og vináttu þar sem nemendur geta upplifað og skapað í góðu umhverfi. Forskólahóparnir taka þátt í jóla- og vortónleikum skólans.

Kennari forskólans er Edda Austmann. Hún hefur áður kennt söng og sviðframkomu í Sönglist í Borgarleikhúsinu og var tónmenntakennari og kórstjóri í Snælandsskóla. Edda lauk BMus. gráðu frá Konunglegu tónlistarakademíunni í London og MMus. gráðu frá Konunglega tónlistarháskóla Skotlands. Hún er sópransöngkona og hefur víða komið fram á tónleikum hérlendis sem og erlendis, þar á meðal á vegum Íslensku óperunnar og Zurich óperuhúss.