
Nemendur í grunn- og miðstigi fá einn tíma á viku í tónfræði og tónheyrn. Nemendur í framhaldsstigi fá klukkustund í hljómfræði, tónheyrn og tónlistarsögu. Nemendum 12 ára og eldri býðst að sækja tíma í tónsköpun sem kenndir eru í lotum og eru auglýstir sérstaklega.
Tónfræði: Í grunnnámi er kennd hefðbundin tónfræði byggð á Ópus tónfræðibókum I-III og Hlustun og greining – frá klassík til popps. Í miðnámi er stuðst við Ópus tónfræðibækur IV-V, Aagot verkefnahefti, Robert Starer hrynæfingar og Hlustun og greining – klassík, djass, rokk og heimstónlist.
Hljómfræði: Kennd er klassísk hljómfræði fyrir byrjendur. Námskeiðið varir tvo vetur. Kennslan felst í fyrirlestrum og æfingum sem að mestu leyti fara fram í kennslustund. Próf fara fram að vori.
Tónlistarsaga: Kennd er saga klassískrar tónlistar frá miðöldum til vorra tíma. Kennslan felst í fyrirlestrum sem sumpart eru haldnir af kennara og sumpart af nemendum. Jafnframt er hlustað á tóndæmi. Próf fara fram að vori.
Tónsköpun í þremur lotum:
- Hlustun og fagurfræði tónlistar. Höfuðáhersla er lögð á að skoða og hlusta á ýmis verk frá barokki og fram til dagsins í dag. Hvað er það sem hefur verið vinsælast í tónlistarsköpun á þessum tíma? Hvað eiga Mozart og Justin Bieber sameiginlegt? Er Bach í alvörunni svona leiðinlegt tónskáld eða var hann bara búinn að drekka allt of mikið kaffi (orkudrykkir þess tíma)? Allt efni verður til staðar í tímum og heimanám felst einungis í því að hlusta á þau verk sem verða tekin fyrir í tímum.
- Tón- og lagasmíðar. Hugtök frá fyrri lotu unnin áfram á hagnýtan hátt og dægurlagamenning síðustu 40 ára skoðuð til samanburðar. Nemendur munu í þessari lotu semja lög eða verk út frá sínu eigin hljóðfæri, eða fyrir þau hljóðfæri sem eru til staðar í hópnum.
- Hljóðtækni. Farið verður yfir helstu aðferðir til þess að taka upp og vinna með hljóð. Allt frá því að nota símann sinn yfir í það hvernig fólk vinnur í stórum stúdíóum. Einnig væri farið í hljóðsmölun og hljóðgervla þar sem nemendur fá að kynnast “modular synthum” og öðrum aðferðum til þess að vinna með raftónlist.
Kennarar
Rakel Axelsdóttir, grunnnám
Gunnar Karel Másson, miðnám, framhaldsnám og tónsköpun