
Söngnámið er byggt á klassískri söngtækni og kennd er örugg notkun á brjóströdd fyrir popptónlist. Fyrir unga söngnemendur er lögð áhersla á góða öndun og stuðning, blöndun raddsviða, framburð, dýnamík, umönnun raddarinnar, þjálfun tónnæmis, framkomu og túlkun í gegnum flutning á sönglögum úr ýmsum áttum. Nemendur læra að syngja með og án hljóðnema ýmist við lifandi píanómeðleik eða afspilun. Nemendur fá aðstoð við val á tónlist við þeirra hæfi og leitast er við að auðga reynslu þeirra af mismunandi tónlistarstíl frá ólíkum tímabilum.
Kennari
Edda Austmann
Edda hóf söngnám sitt í Söngskólanum í Reykjavík og lauk bakkalárgráðu í tónlist frá Konunglegu tónlistarakademíunni í Lundúnum. Hún vann til söngverðlauna og hlaut fullan skólastyrk til mastersnáms í óperudeild Konunglega tónlistarháskóla Skotlands. Hún hefur verið einsöngvari með Konunglegu skosku sinfóníuhljómsveitinni og með Zürich kammerhljómsveitinni í Tonhalle. Eins hefur hún verið einsöngvari í mörgum helgiverkum með kór og hljómsveit. Edda hefur komið fram hérlendis og víða í Evrópu, meðal annars á vegum Zürich óperunnar, Garsington óperunnar, Íslensku óperunnar og minni óperukompanía. Edda er í kammerkór Bústaðakirkju og syngur einsöng við athafnir. Edda lauk LRAM söngkennaraprófi frá Konunglegu tónlistarakademíunni í Lundúnum árið 2002.